© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
8.1.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Íþróttamaður ársins
Þá hefur verið lýst kjöri íþróttamanns ársins í 47. sinn. Kjörið hefur skapað sér fastan sess í þjóðlífinu, og vekur jafnan athygli. Hátíðin sjálf hefur með árunum orðið glæsilegri í samstarfi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna, og markast það e.t.v. af því að nú gerist allt í beinni útsendingu í sjónvarpi. Með vexti íslenskrar íþróttahreyfingar hefur valið sem betur fer ávallt orðið erfiðara með hverju árinu sem líður.

Að þessu sinni féll heiðurinn í skaut Ólafi Stefánssyni, reyndar með fádæma yfirburðum. Er hann vel að titlinum kominn – glæsilegur og hógvær íþróttamaður sem er landi og þjóð til sóma. Sendi ég honum mínar bestu hamingjuóskir.

Eitt atriði – óskráð og óskilgreint – hlýtur óneitanlega alltaf að hafa áhrif á val íþróttamanns ársins, en það er framkoma og persónuleiki viðkomandi íþróttamanna. Það er reyndar mín skoðun að slíkt eigi að vera skilgreiningaratriði. Ég sagði einhvern tímann í fyrri pistli (um stéttleysi íþróttahreyfingarinnar) að það sem skipti máli við mat á íþróttamanni sé tæknileg geta hans og ekki síður persónuleikinn til að fara með þá getu. Sú yfirlýsing á vel við hér.

Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa haft á að skipa úrvali slíkra einstaklinga, reyndar framúrskarandi heillandi íþróttamanna sem hafa verið æsku landsins miklar og góðar fyrirmyndir á öllum sviðum. Ég held því reyndar fram að þar sé ekki um tilviljun að ræða heldur þurfi þetta tvennt að saman til þess að menn nái árangri á borð við það að vera meðal þeirra efstu við útnefningu íþróttamanns ársins, þ.e. tæknileg geta og jákvæður persónuleiki afreksmannsins.

Afreksmenn í körfuknattleik hafa í gegnum þessa tæpu hálfu öld jafnan ekki verið áberandi meðal þeirra efstu í kjöri íþróttamanns ársins. Þó má ekki gleyma því að okkar ástsæli fyrrum formaður, Kolbeinn Pálsson, var reyndar kjörinn íþróttamaður ársins 1966. Í ár áttum við sannarlega glæsilegan fulltrúa í hópi 10 efstu þar sem fór Jón Arnór Stefánsson – bróðir íþróttamanns ársins, Ólafs Stefánssonar.

Þótt ungur sé – rétt um tvítugt - er Jón Arnór þegar orðinn þekktur afreksmaður í Evrópu, og hefur allt til að bera til að verða afburðaíþróttamaður. Uppfyllir hann sannarlega framangreinda kenningu mína um tæknilega getu samhliða jákvæðum persónuleika. Hann náði 7. sæti í valinu að þessu sinni, og mun án efa gera harða atlögu að þeim titli sem bróðir hans hampar nú um stundir. Sumir halda því reyndar fram að innan fárra ára verði rætt um Ólaf Stefánsson sem stóra bróður Jóns Arnórs. Miðað við hógværð hins eldri þá má gera ráð fyrir að fáir myndu vera ánægðari með þann samanburð og árangur litla bróður en einmitt íþróttamaður ársins 2002.

Þeir bræður eru reyndar fulltrúar sitthvorrar íþróttagreinarinnar, og geta menn haft ýmsar skoðanir á því hvort erfiðara sé að ná einstaklingsárangri í annarri frekar en hinni – en ætlunin er að reifa lauslega sjónarmið um val á íþróttamanni ársins í næsta pistli.

Með von um gott íþróttaár 2003.

Ólafur Rafnsson,
formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Páll Axel Vilbergsson á leiðinni að leggja boltan í körfu Breiðabliks í Smáranum í Iceland Express-deildinni 2008.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið