© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
18.12.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Gæðastjórnun
Gæðastjórnun er hugtak sem á undanförnum árum hefur orðið að nokkru tískuorði í viðskiptalífinu. Gæðastjórnun er fyrirbæri sem telst vera einkenni framsækinna fyrirtækja með nútímalega stjórnunarhætti, eins og það heitir á fínu viðskiptamáli. Einhver skilgreindi gæðastjórnun hinsvegar þannig að hún felist ekki í því að fullkomna framleiðsluferli með því að framkvæma hvert atriði 1000% betur heldur að framkvæma 1000 atriði 1% betur.

Íþróttahreyfingin hefur – ef til vill ómeðvitað – stundað þróaða gæðastjórnun áratugum saman. Uppbygging afreksfólks í íþróttum byggir nefnilega á nákvæmlega sömu grundvallarlögmálum og gæðastjórnun, þ.e. að vinna í því að bæta örlítið við hvert smáatriði í “framleiðsluferlinu”. Þegar kemur að keppni þeirra bestu ráðast úrslit af þessum smæstu smáatriðum sem ráðið geta þeim sekúndubrotum, millimetrum og stigum sem skilja sigurvegarana frá öðrum keppendum.

Þegar komið er að keppni þeirra bestu er líkamlegt og tæknilegt atgervi jafnan hið sama, en það sem skilur á milli þeirra bestu og næstbestu er viljinn og getan til þess að bæta örlitlu við – metnaðurinn til þess að æfa hálftímanum lengur, aginn til þess að stunda aukaæfingar snemma að morgni, samviskusemin til að þróa jafnt skemmtilega sem leiðinlega þætti, og síðast en ekki síst skynsemin sem felst í hollu líferni og afneitun þátta sem hafa truflandi áhrif á “framleiðsluferlið”, svo sem vímugjafa.

Það hafa í sjálfu sér ekki komið til dýrir ráðgjafar eða kostnaðarsamar úttektir við að innleiða gæðastjórnunarkerfi í íþróttahreyfingunni. Metnaður þjálfarans og samviskusemi afreksmannsins hafa verið þau tæki sem sem komið hafa í stað hlutafjár og bankalána. Þetta á a.m.k. við um íslenska íþróttahreyfingu.

Munur á íslenskri íþróttahreyfingu og alþjóðlegum keppinautum felst hinsvegar í ólíkum aðgangi að fjármagni. Íslenskir áhugamenn eru að keppa við atvinnumenn og þjóðir sem eyða mun meira fjármagni til íþróttastarfs en Ísland. Slíkt er í sjálfu sér ekki óeðlilegt með tilliti til smæðar þjóðarinnar, en árangur íslenskra íþróttamanna á alþjóðlegum vettvangi er hinsvegar afar athyglisverður í ljósi þessa.

Gæðastjórnun og viðhorf til fullkomnunar framleiðsluferlisins er eitthvað sem íslenskt atvinnulíf getur ef til vill betur lært af íþróttahreyfingunni. Reyndar er það svo að þetta er nokkuð sem íþróttahreyfingin hefur án efa þegar gert atvinnulífinu gagn með uppbyggingu einstaklinga innan vébanda íþróttahreyfingarinnar sem alast upp við metnað og samviskusemi sem fellur prýðilega undir framangreinda skilgreiningu gæðastjórnunar og skilar sér í þeirra daglegu störfum innan atvinnulífsins. Þetta er nokkuð sem íþróttahreyfingin á Íslandi getur eignað sér að hluta sem framlag til framleiðni og hagvaxtar í samfélaginu.

Líklega er erfitt að reikna út framlag íþróttahreyfingarinnar til samfélagsins og atvinnulífsins í formi hinna mannlegu eiginleika gæðastjórnunar, en enginn ætti að velkjast í vafa um að það er umtalsvert. Það er engin tilviljun að afreksmenn í íþróttum eru eftirsóttir starfskraftar í atvinnulífinu, enda hafa þeir alist upp við framangreindan metnað og samviskusemi.

Einnig er eftirtektarvert að þau stjórnunarstörf sem standa að baki uppbyggingu afreksfólks innan íþróttahreyfingarinnar eru jafnan unnin í sjálfboðavinnu. Að því leyti er íþróttahreyfingin frábrugðin einingum atvinnulífsins. Það væri án efa fróðlegt að komast að því hversu langt þessi litla smáþjóð kæmist í árangri á alþjóðlegum vettvangi ef umgjörð uppbyggingar afreksfólks væri sambærileg og fjárhagsforsendur samsvarandi við erlenda keppinauta.

Þó má vitaskuld ekki gleyma því að uppbygging afreksmanna hefur jafnframt haldist í hendur við atvinnulífið. Íslenskt atvinnulíf hefur öðrum fremur verið sá fjárhagslegi bakhjarl sem íþróttahreyfingin hefur treyst á til þess að geta haldið út því þó vanmáttuga afreksstarfi íþróttahreyfingarinnar. Ég hygg því að það sé með réttmætu stolti sem íslenskir afreksmenn koma fram fyrir hönd sinnar þjóðar á erlendri grundu með íslenska fánann á brjóstinu og ef til vill auglýsingu íslensks fyrirtækis á bakinu.

- - - - - -

Ég vil að lokum þakka mikil og málefnaleg viðbrögð sem ég hef fengið við pistlum þessum. Þeir eru settir fram í því skyni að skapa málefnalega umræðu, og síður en svo ætlaðir til árása á einn eða neinn. Samanburður við aðrar stofnanir samfélagsins kann vissulega stundum að líta út sem slík árás, en er ekki ætlaður til slíks. Ef svo er þá er það reyndar viss rökstuðningur fyrir réttmæti samanburðarins Ég er sannfærður um að þeir aðilar sem stýra málaflokkum sem samanburður er gerður við hafa fullan skilning á baráttu okkar fyrir betra gengi okkar málaflokks – íþróttastarfsemi. Þessir pistlar endurspegla mína persónulegu sannfæringu, og eru síður en svo hinn eini heilagi sannleikur málsins.

Að öðru leyti er undirritaður farinn í jólafrí frá pistlaskrifum að sinni. Ég óska lesendum gleðilegra jóla og farsæls komandi íþrótta- og kosningaárs.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.


Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá leik Hauka og ÍR í 1. deild kvenna í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði árið 1983.  Neðst á lyklinum eru Sóley Indriðadóttir og Svanhildur Guðlaugsdóttir - mæður núverandi leikmanna meistaraflokks, Hönnu Hálfdánardóttur og Helenu Sverrisdóttur.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið