© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
   
11.12.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Forgangsröðun fjármagns
Í síðasta pistli mínum fjallaði ég um forgangsröðun lífsgæða og nauðsyn þess að íþróttahreyfingin aðlagi sig að takmörkum samfélagsins að því er varðar forgangsröðun grunnþarfa þegnanna. Í þessum pistli er ætlunin að fjalla um sama málefni frá bæjardyrum fjárveitingarvaldsins, og nauðsyn þess að íþróttahreyfingunni sé skapaður grundvöllur til að bjóða samfélaginu upp á þá forgangsröðun. Slíkt endurspeglar hina s.k. “pólitík” í samfélaginu – þ.e.a.s. forgangsröðun fjármagns og þau markmið fjárveitingarvaldsins til þess hvernig samfélag við byggjum.

Sem skattgreiðanda í þessu samfélagi er mér síður en svo sama hvernig útgjöldum hins opinbera er varið. Sem skattgreiðanda ber mér í raun skylda til að hafa skoðun á því hvernig hið opinbera forgangsraðar fjárveitingum – þótt sannarlega hafi ég sem einstaklingur afar lítil bein áhrif á það í því ófullkomna fulltrúalýðræði sem þetta elsta lýðræðisríki heims býr við. Engum skyldi þó dyljast – sem lesið hefur reglulega leiðara þessa – að undirritaður telur nokkuð halla á íþróttahreyfinguna þegar kemur að fjárframlögum hins opinbera. Snýst sú skoðun e.t.v. fremur um skiptingu kökunnar heldur en stærð hennar.

Í síðasta pistli um forgangsröðun lífsgæða kom skýrt fram að undirritaður telur útgjöld til heilbrigðis- og menntamála og stofnana sem stuðla að velferð fjölskyldunnar, vera nauðsynleg. Einnig þurfum við nauðsynlega að hafa löggæslu og dómsvald. Það að vera sammála nauðsyn þessara samfélagsþátta felur þó ekki nauðsynlega í sér að vera sammála núverandi fjárhæð, sundurliðun og ráðstöfun þess fjármagns. Síður en svo. Bæði er að unnt er að spara verulegar fjárhæðir og nýta fjármagn betur. Slíkt getur m.a. gerst með auknu samstarfi við íþróttahreyfinguna, og ekki síður með því að innleiða þá ráðdeild og meðvitund um nýtingu fjármagns sem íþróttahreyfingin hefur almennt þurft að byggja sín fjármál á. Þetta er þó ekki sérstaklega til umfjöllunar hér.

Þá er það sannarlega mín skoðun að við getum – og eigum að gera – miklu betur við öryrkja og aldraða, sem og aðra þá sem minna mega sín í samfélaginu. Enginn velkist í vafa um að þeirra barátta er mikilvægari en okkar. Þá má nefna fjárframlög til atvinnuvega, s.s. sjávarútvegs og landbúnaðar, sem skapa þjóðinni lifibrauð og stuðla að því að uppfylla grunnþarfir með því að auka tekjur og hagvöxt í samfélaginu. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim gríðarlegu fjárhæðum sem varið er af fé skattborgara til slíkra málaflokka. Einstakir liðir hlaupa undantekningarlítið á hundruðum milljóna, og málaflokkar á milljörðum. Heildarútgjöld ríkisins eru reyndar ekki svo fjarri einni milljón á hvern íbúa landsins.

Innan vébanda íþróttahreyfingarinnar eru nálægt 100.000 iðkendur. Meðalkostnaður við hvern háskólanemanda er hærri en ein milljón samkvæmt fjárlögum. Svona til samanburðar myndi þetta samsvara 100 milljarða framlag til íþróttahreyfingarinnar. Slíkt framlag væri vitaskuld firra, en eitthvað má þó á milli vera. Heilbrigðiskerfið á Íslandi kostar einmitt slíka 100 milljarða, og með 5% sparnaði vegna betra heilbrigðis þjóðarinnar myndu geta unnist 5000 milljónir króna. Fjárveitingum sem næðu fram slíkum sparnaði væri vel varið, og stangast síður en svo á við forgangsröðun lífsgæða, heldur e.t.v. þvert á móti.

Og svo er það andlega hliðin. Vitaskuld eru góð og gild rök fyrir mikilvægi trúar og trúariðkunar í forgangsröðun samfélagsins. En þarf trúariðkun að kosta svona mikla peninga? Er það ekki hreint og beint í andstöðu við það sem okkur var kennt í Sunnudagaskólanum? Sóknargjöld og rekstur Þjóðkirkjunnar kosta ríkið u.þ.b. 3,5 milljarða, eða vel rúmlega tífalt meira en framlög til íþrótta skv. fjárlögum.

Það eru ýmsir málaflokkar sem ekki lúta beint að grunnþörfum samfélagsins, og eiga það sameiginlegt með íþrótta- og listastarfsemi. Engu að síður er í öllum tilvikum um mikilvæga málaflokka að ræða – spurningin snýst bara um forgangsröðun. Til þessara málaflokka má t.d. telja söfn og þjóðminjar, landgræðslu og skógrækt, og e.t.v. síðast en ekki síst hina viðamiklu utanríkisþjónustu landsins. Enn og aftur hlaupa fjárhæðir þessara málaflokka gjarnan á milljörðum.

Ég hef í sjálfu sér áður í þessum pistlum reifað ítarlega samanburð á framlögum til listastarfsemi, en vek nú athygli á fjárhæðum fjárlagafrumvarpsins, og nefni hér nokkur dæmi: Listdansskólinn (56,6 millj.), Íslenski dansflokkurinn (65,3 millj.), Þjóðleikhúsið (468,8 millj.), Sinfóníuhljómsveitin (250 millj. frá ríki, auk óreglulegra tekna að fjárhæð 196,4 millj.), Íslenska óperan (156,5 millj.), Kvikmyndastöð Íslands (331 millj.) og síðan er óskilgreindur liður í fjárlagafrumvarpi sem heitir “Listir, framlög” (509,5 millj.), að ógleymdum sjálfum listamannalaununum úr listasjóði, sem fær 254,3 milljónir þetta árið. Þetta eru nokkur dæmi af listastofnunum landsins, en þá eru ótalin t.d. listasöfn o.þ.h..

Heildarframlög til málaflokksins “Ýmis íþróttamál” mælist vart á súluriti við hlið þessara málaflokka. Málaflokkur íþrótta er í heild 196,6 milljónir og skiptist á fjölmarga liði sem jafnvel er spurning um hvort allt eigi að heyra undir almenna skilgreiningu íþrótta í heild sinni, m.a. ÍSÍ (74,7 millj.), Íþróttir fatlaðra (18 millj.), Íþróttasjóður (18,3millj.), Skák og bridge (23,4 millj.), Vetraríþróttamiðstöð á Akureyri (25,8 millj. þ.m.t. fjárfestingar), Afrekssjóður (25 millj.), glíma (3,5 millj.) o.s.frv. Allt þetta sameiginlega nær rúmlega framlagi til Íslensku óperunnar.

Er það í raun nokkur furða að aðilar innan íþróttahreyfingarinnar vilji stokka þetta kerfi lítillega upp – gefa spilin aftur með hliðsjón af raunveruleikanum í samfélagi nútímans. Ég vil reyndar taka fram að íþróttahreyfingin á mikla samleið með t.d. áhugaleikhúsum og öðrum slíkum málaflokkum þegar kemur að skiptingu fjármagns. Þær fjárhæðir koma til viðbótar annarri listastarfsemi.

Ég vil ljúka þessum pistli með því að vekja athygli á einum „litlum” en dæmigerðum lið í fjárlagafrumvarpinu sem vekur spurningar. Það er 10 milljóna króna framlag til menningarkynningar í Frakklandi. Eflaust hið mætasta verkefni, en er í sjálfu sér nokkur eðlismunur á því að kosta landslið okkar til kynningar á þeim þætti íslenskrar menningar á erlendri grundu?

Á milli jóla og nýárs mun Körfuknattleikssamband Íslands standa fyrir íþróttatengdri menningarkynningu í Luxembourg, og er á þessum viðburði sérstaklega tekið tillit til jafnréttis kynja. Bæði karla- og kvennalandslið Íslands munu þar með stolti halda á lofti íslenskri íþróttamenningu. Fjárveitingar óskast.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.


Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá 40 ára afmælishófi KKÍ 24. febrúar 2001.  Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ávarpar veislugesti.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið