S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
13.8.2012 | 20:09 | U18 karla
Finnar unnu í spennuleik
Fyrir leikinn var það ljóst að með sigri okkar manna hlytum við efsta sæti riðilsins og færum með 2 stig í milliriðil efstu liðanna (1-8) en tap þýddi 4.sæti riðilsins og ekkert stig inn í milliriðil um sæti 9-16. Gríðarlega mikilvægur leikur enda lögðu menn allt undir í þessum mikla baráttuleik. Eftir harðan slag voru það Finnar sem sigruðu 78-86 í leik sem hefði getað fallið okkar megin. Síðast er þessi lið mættust tóku Finnar okkar menn með 40 stigum en það átti sko að kvitta fyrir það í dag og voru menn ansi nálægt því, en gátu að minnsta kosti gengið af velli með höfuðið hátt. Leikurinn hófst með miklum látum en það voru Finnar sem byrjuðu betur og komust í 7-2 en íslensku drengirnir settu þá allt í botn og náðu 8-0 áhlaupi og staðan orðin 10-7 þegar leikhlutinn var rétt hálfnaður. Finnar voru ívið sterkari undir lokin og þegar leikhlutanum lauk var staðan 14-18 Finnum í vil. Ljóst að mikilvægi leiksins var gríðarlegt og baráttan eftir því. Annar leikhlutinn var svo lyginni líkastur og hreint út sagt ótrúlegur hjá íslenska liðinu. Til þess að gera langa sögu stutta þá settu okkar menn af stað flugeldasýningu og sigruðu leikhlutann 35-27! Það hreinlega datt allt ofaní og Finnar gjörsamlega sundurspilaðir á köflum. Staðan í leikhléi því 49-45 okkar drengjum í vil og stemmingin í hópnum gríðarleg. Ef það er eitthvað sem Finnar eru þekktir fyrir þá er það harkan og þeir mættu til leiks í 3.leikhlutann með gríðarlega harðan varnarleik. Sóknarleikurinn varð þar af leiðandi stirðari hjá okkar mönnum en okkar drengir svöruðu í sömu mynt varnarlega og tóku hressilega á Finnum. Þegar leikhlutanum lauk þá var staðan 61-59 og fór þessi harði leikhluti því 12-14. Leikurinn í járnum og okkar menn leiddu ennþá en við fengum tækifærin í 3.leikhluta til þess að leiða meira en með 2 stigum en því miður féllu ekki góð skot með okkur. Fjórði leikhlutinn var síðan járn í járn þartil rétt undir restina þegar að Finnar komust þetta 5-7 stigum yfir og allar tilraunir okkar manna til þess að minnka muninn runnu út í sandinn. Það féll ekkert með okkur á þessum kafla, því miður en menn voru að fá ágætis skot. Finnar sigra því og fara í umspil efstu 8 liðanna en okkar manna bíður það verkefni að leika um sæti 9-16. Vissulega grátlegt eftir frábæra byrjun liðsins en það verður ekki annað sagt en þessi riðill hafi verið sannkallaður „dauðariðill“ og tapleikirnir gegn Svíum og Finnum voru heilt yfir góðir og drengjunum til mikils sóma. Þjálfarateymið var að minnsta kosti stolt af liðinu sínu eftir leik, drengirnir settu hjartað og sálina í þetta og ekki hægt að fara fram á meira. Martin Hermannsson var atkvæðamestur með 20 stig og sýndi snilldartilþrif í leiknum. Matthías Sigurðarson gerði 18 stig og átti frábæran leik rétt eins og Elvar Már sem setti 13 stig og gaf 4 stoðsendingar. Maciej var traustur með 10 stig og 4 fráköst og þá setti Valur Orri 7 stig og tók 6 fráköst. Hjá Finnum var það Joonas Lehtoranta sem reyndist okkur gríðarlega erfiður en hann setti 24 stig og var með 70% skotnýtingu. Frábær leikmaður! Stóri maðurinn þeirra Julius Rajala var einnig öflugur með 14 stig og 11 fráköst (5 í sókn) en frákastabaráttan reyndist okkur erfið. Í fyrri hálfleik vorum við 10 af 16 í þriggja stiga skotum en EKKERT fór niður í þeim seinni af 14 en þetta voru flest allt fín skot. Hlutirnir féllu einfaldlega ekki með okkur á réttum tíma að þessu sinni. Eins og fyrr segir er þetta grátleg niðurstaða eftir riðlakeppnina þar sem okkar drengir léku heilt yfir gríðarlega vel. En svona eru íþróttirnar og það þýðir ekki að gráta þetta lengi heldur einblína á næstu leiki sem verða gríðarlega erfiðir. Hópurinn á frí á morgun en svo tekur alvaran aftur við á miðvikudaginn. Strákarnir eru í milliriðli með Svíum, Hollendingum og Portúgölum. Svíar og Portúgalir fara með sigra úr innbyrðisleikjum upp í milliriðil en liðin í fyrsta og öðru sæti fara svo í baráttu um 9-12 sæti en liðin í 3-4 berjast um 13-16 við lið úr hinum milliriðlinum en þar eru Austurríki, Slóvakía, Rúmenía og Ungverjaland. Tölfræði leiksins Strákarnir senda baráttukveðjur heim til A-landsliðsins sem á leik gegn Serbum á morgun. Áfram Ísland!! |