S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
9.8.2012 | 21:28 | U18 karla
Flottur sigur gegn Sviss í fyrsta leik hjá U18 karla !
Þetta var fyrsti leikur liðsins í C-riðli en menn renndu frekar blint í sjóinn gegn Svissneska liðinu en búist var við hörkuleik. Okkar menn mættu heldur betur tilbúnir til leiks og byrjuðu af gríðarlega miklum krafti. Hátt hitastig og mikill raki í keppnishöllinni var ekki að slá menn út af laginu og drengirnir „sjóðheitir“ í öllum sínum aðgerðum. Miðherjinn sterki Stefán Karel Torfason gerði fyrstu körfu leiksins eftir fallega og vel útfærða sókn og menn voru ekki lengi að finna taktinn. Í stöðunni 9-0 Íslendingum í vil þá tóku Svisslendingar leikhlé og stemmingin í íslenska hópnum var mikil. Sóknarleikurinn var glimrandi og hraðaupphlaupin voru að gefa íslenska liðinu mikið af auðveldum körfum. Varnarleikur liðsins var einnig öflugur og margir leikmenn að leggja í púkkið á báðum endum vallarins. Í hálfleik var staðan 47-28 og ljóst að það stefndi í gott kvöld hjá íslenska liðinu. Seinni hálfleikurinn hófst svo nákvæmlega eins, okkar menn byrjuðu gríðarlega sterkt og hreinlega léku við hvurn sinn fingur fyrstu 5 mínútur leikhlutans. Fallegt spil og aukasendingar skiluðu okkar auðveldum körfum og vörnin þétt. Munurinn allt í einu orðinn 29 stig og íslenskur sigur nánast í höfn. Leikmenn Sviss voru þó alls ekki á þeim buxunum að láta „rasskella“ sig og komu með frábært áhlaup 14-0 og komu sér aftur inní leikinn. Á þessum kafla lék íslenska liðið mjög illa og leikmenn Sviss gengu á lagið og fengu trú á verkefnið sem virtist ómögulegt 5 mínútum áður. Íslensku leikmennirnir rönkuðu þó hressilega við sér og bættu aftur í og sigldu þessu mjög örugglega í höfn 89-71 í heilt yfir flottum leik sterkrar liðsheildar. Allir leikmenn liðsins léku að þessu sinni og breidd liðsins var það sem skóp flottan sigur. Martin Hermannsson átti mjög góðan leik með 21 stig og 5 fráköst og þá kom Dagur Kár Jónsson gríðarlega sterkur inn af bekknum og setti 12 stig. Matthías Orri átti einnig góðan leik með 14 stig (frábæra skotnýtingu) og þá áttu þeir Maciej, Elvar og Emil traustan dag. Liðið leikur á morgun gegn Svartfjallalandi og er ljóst að það verður erfitt verkefni enda Svartfjallaland með gríðarlega öflugt lið sem sigraði Norðurlandameistara Finna fyrr í kvöld með 5 stigum. Leikurinn hefst kl 1830 að íslenskum tíma. Annars fer vel um hópinn hérna í Bosníu, það er heitt í veðri en allt skipulag og aðbúnaður er Bosníumönnum til mikillar fyrirmyndar. Drengirnir og þjálfarateymið senda kærar kveðjur heim á klakann. |