© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
     
| 1999 | 2000 | 2001 | 2002 | 2003 | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 |
16.5.2010 | 12:55 | Kristinn | Yngri landslið
Ísland Norðurlandameistari í U16 drengja · Martin Hermannsson MVP mótsins
Ísland var rétt í þessu að leggja Svía í úrslitaleik um Norðurlandameistaratitilinn.
Ísland var betri aðilinn allan leikinn og sigraði að lokum, 82:54.

U18 karlaliðið okkar tapaði með einu stigi fyrir Finnum í leik um þriðja sætið.

Valur Orri var valinn maður úrslitaleiksins.

Verðlaunaafhendingunni var að ljúka og þar var Martin Hermannsson valinn í úrvalslið mótsins og jafnframt MVP mótsins í flokki U16 drengja. KKÍ óskar Martin og strákunum innilega til hamingju með árangurinn.Stigahæstir í liði Íslands í úrslitaleiknum voru Valur Orri með 22 stig, Martin 21, Maceij 15 og Matthías 14 stig.Myndasafn 1:
Hægt er að sjá myndir úr úrslitaleiknum gegn Svíþjóð hérna.

Myndasafn 2:
Fleiri myndir úr úrslitaleiknum gegn Svíþjóð hérna.

Umfjöllun:
Ísland er Norðurlandameistari í körfuknattleik árið 2010 í flokki U16 ára karla. Liðið mætti heimamönnum í Svíþjóð í úrslitaviðureigninni og hreinlega valtaði yfir gestgjafa sína. Lokatölur leiksins voru 82-54 Íslandi í vil. Valur Orri Valsson átti magnaðan dag í íslenska liðinu með 22 stig, 5 stoðsendingar og 4 fráköst. Næstur honum var Martin Hermannsson með 21 stig, Maciej Baginski gerði 15 stig og Matthías Orri Sigurðarson kom sterkur af bekknum með 14 stig. Þá var miðherjinn öflugi Stefán Karel Torfason hreint út sagt magnaður með 9 fráköst og 4 stig og var sannarlega límið sem batt saman glæsilega vörn Íslands.
Valur Orri Valsson var valinn besti maður leiksins en maður mótsins var valinn Martin Hermannsson sem einnig var einn Íslendinga valinn í úrvalslið mótsins.

Valur Orri Valsson opnaði stigareikning Íslands með þriggja stiga körfu og um leið hófst einhver besti leikhluti liðsins á mótinu. Ísland byrjaði í svæðisvörn sem Svíar áttu erfitt með að leysa og Íslendingar hvergi bangnir röðuðu inn stigum á hinum enda vallarins.

Liðsfélagarnir frá Njarðvík þeir Valur Orri og Maciej Baginski voru á tánum frá fyrstu mínútu, Valur breytti stöðunni í 11-7 með þrist og Baginski tók við keflinu með öðrum slíkum og staðan 14-7. Enn var Valur Orri á ferðinni fyrir utan þriggja stiga línuna þegar hann breytti stöðunni í 29-15. Þorgrímur Kári Emilsson átti svo lokaorðið fyrir Ísland í þessum rosalega upphafsleikhluta er hann náði sóknarfrákasti og skoraði um leið og flautan gall og staðan 31-17 fyrir Ísland eftir 10 mínútna leik, ótrúleg byrjun og Svíar vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið.

Hrakfarir Svía héldu áfram því Martin Hermannsson opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu, 34-22. Martin var hvergi nærri hættur heldur rann æði á manninn sem gerði 9 stig í röð fyrir Íslands hönd og réttnefndur ,,Solo Martinez.“ Svíar tóku leikhlé og mættu til baka með svæðisvörn sem hægði verulega á íslenska liðinu, um leið og Svíar duttu í svæði hættu Íslendingar að hitta og heimamenn náðu að minnka muninn í 48-39 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Valur Orri og Martin voru báðir með 14 stig í hálfleik og Maciej Baginski var að leika fantavel með 11 stig.

Einbeiting og festa eru kannski best til þess fallin að lýsa leik íslenska liðsins í síðari hálfleik. Vörnin var glæsileg og Svíar sáu ekki til sólar, gerðu aðeins 8 stig í 3. leikhluta gegn 16 frá Íslandi og staðan því 64-47 fyrir lokasprettinn. Matthías Orri Sigurðarson setti tvo stóra þrista undir lok þriðja leikhluta og sást það langar leiðir að þeir sviðu sem salt í svöðusár heimamanna.

Fjórði leikhluti var ekki ósvipaður þeim þriðja og Svíar náðu aðeins að skora 7 stig í leikhlutanum og því settu þeir aðeins 15 stig á Ísland á þessum 20 mínútum í síðari hálfleik. Rosaleg vörn Íslands færði þeim því Norðurlandameistaratitilinn árið 2010 og strákarnir ásamt þjálfara liðsins, Einari Árna Jóhannssyni, fögnuðu líkt og enginn væri morgundagurinn. Þess má geta að gullkálfurinn Ingi Þór Steinþórsson var Einari innan handar á bekknum og hefur gullæðið úr Hólminum væntanlega smitast inn í íslenska liðið.

Lokatölur reyndust að endingu vera 82-54 Íslandi í vil þar sem Valur Orri Valsson var verðskuldað valinn besti maður úrslitaleiksins með 22 stig, 4 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Á heildina telfdi Ísland fram sterku og jöfnu liði í U16 ára karla þetta árið, allir þeir sem komu inn af bekknum stóðu sig ekki síður en þeir sem voru í byrjunarliðinu og varnarleikur liðsins er eitthvað sem ætti að koma í kennslubók í snarhasti.

Stigaskor íslenska liðsins
Valur Orri Valsson – 22 stig, 5 stoðsendingar, 4 fráköst, 3 stolnir boltar
Martin Hermannsson – 21 stig
Maciej Baginski – 15 stig, 4 fráköst
Matthías Orri Sigurðarson – 14 stig, 3 fráköst
Stefán Karel Torfason – 4 stig, 9 fráköst, 2 stoðsendingar
Jens Valgeir Óskarsson – 2 stig
Þorgrímur Kári Emilsson – 2 stig
Emil Karel Einarsson – 2 stig, 7 fráköst

Byrjunarlið Íslands: Valur Orri Valsson, Martin Hermannsson, Maciej Baginski, Emil Karel Einarsson, Stefán Karel Torfason.

Lokastaðan á NM 2010

Ísland - Norðurlandameistari
U16 karlar:
1. Iceland M16 4/0 8
2. Sweden M16 3/1 6
3. Denmark M16 2/2 4
4. Finland M16 1/3 2
5. Norway M16 0/4 0

Svíþjóð - Norðurlandameistari
U16 konur:
1. Denmark W16 4/0 8
2. Sweden W16 3/1 6
3. Finland W16 2/2 4
4. Norway W16 1/3 2
5. Iceland W16 0/4 0

Svíþjóð - Norðurlandameistari
U18 karlar:
1. Sweden M18 4/0 8
2. Denmark M18 3/1 6
3. Finland M18 2/2 4
4. Iceland M18 1/3 2
5. Norway M18 0/4 0

Finnland - Norðurlandameistari
U18 konur:
1. Denmark W18 3/0 6
2. Finland W18 3/1 6
3. Sweden W18 2/1 4
4. Norway W18 1/3 2
5. Iceland W18 0/4 0
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Hlynur Bæringsson í landsleik gegn Danmörku í Laugardalshöll.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið