© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
           
| 1999 | 2000 | 2001 | 2002 | 2003 | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 |
3.12.2009 | 9:36 | Kristinn | Dómaramál
Áhugaverður pistill um dómarastörf í yngriflokkum
Á dögunum barst kki.is áhugaverður pistill frá fyrrum dómara og foreldra barns í yngriflokkum um dómgæslu á fjölliðamótum.

Dómgæsla og dómarastörf eru þarft umræðuefni og eitthvað sem við getum sífelt bætt innan okkar hreyfingar. Við hvetjum sem flesta til að lesa pistilinn hér að neðan:

Hugleiðingar um störf dómara í yngri flokkum körfubolta
Ég er dómari en hef ekki dæmt mikið undanfarin 2-3 ár nema á minniboltamótum eins og Actavis mótinu og stöku leik í yngri flokkum. Líklega var ég búinn að gleyma hvers vegna ég hætti að dæma á sínum tíma þegar ég tók aftur fram flautuna um helgina.

Haukar sáu um fjölliðamót 7 flokks drengja um helgina en ég á strák í okkar liði. Það vantaði dómara og ég skráði mig á tvo leiki á laugardaginn og tók svo að mér lokaleikinn milli tveggja efstu liðanna á sunnudeginum. Fyrsti leikurinn var mjög jafn og endaði í framlengingu og lokaleikurinn var einnig mjög spennandi allt fram á síðustu sekúndu. Báðir leikir voru á milli aðkomuliða þannig að ég var ekki að dæma hjá mínu liði.

Nema hvað að í báðum leikjunum stóðu þjálfarar beggja liða á hliðarlínunni og létu dæluna ganga yfir dómarana allan leikinn: “Villa dómari!”, “Skref”, “Dæmdu báðu megin”, o.s.frv. o.s.frv. og voru svo með aðrar meiri athugasemdir inn á milli.
Í seinni leiknum var annar þjálfarinn einnig með sífelldar athugasemdir í öllum hléum leiksins og ég þurfti að veita honum alvarlegt tiltal í hálfleik og endaði með að gefa honum tæknivíti í lok leiks.

Í báðum leikjunum höfðum við dómararnir góð tök á leiknum allan tímann, fyrir utan að hafa tök á framkomu þjálfaranna. Mér fannst við standa okkur vel, við dæmdum af sanngirni og ákveðni.

Eftir fyrri leikinn komu báðir þjálfarar liðanna að máli við mig og þökkuðu fyrir góða dómgæslu og lýstu ánægju sinni með að hafa fullorðinn dómara sem mætti í búningi og dæmdi af fagmennsku. Annar afsakaði að hann hafi aðeins misst stjórn á sér og sagði að ég hefði bara átt að gefa honum tæknivíti. Sama með seinni leikinn, báðir þjálfarar komu og þökkuðu mér fyrir leikinn.

Bara hluti af leiknum
Eftir leikinn er sumsé allt fallið í ljúfa löð, þetta var því bara hluti af leiknum.
Eftir að ég kom heim fór ég að velta þessu nánar fyrir mér. Að hafa verið að standa í hávaðarifrildi við fullorðna menn og sitja undir lestrinum frá þeim heilu leikina er fúlt og mér leið alls ekki vel eftir þetta dagsverk. Er ég þó sæmilega sjóaður í mannlegum samskiptum, 49 ára gamall, háskólamenntaður í stjórnun, framkvæmdastjóri til margra ára og 3 barna faðir.

En þetta er bara engan veginn í lagi, mér á ekki að þurfa að líða svona. Þetta er sjálfboðaliðastarf og úr slíkum störfum á maður að fá ánægju en ekki svekkelsi.
Það að svona framkoma sé hluti af leiknum er það sem ég er ósáttur við. Þetta á að snúast um að skapa umgjörð um heiðarlega keppni milli 12 ára krakka en ekki keppni milli þjálfara um hver geti mótmælt dómurnum háværar. Það getur ekki verið eðlilegur hluti af starfi dómara í hverjum leik að aðvara þjálfara og gefa þeim tæknivíti.

Hver er ánægjan af starfinu?
Þjálfarar hafa metnað til að þeirra lið vinni leiki og fá sína ánægju út úr því . En er sigurinn allt, sama hvernig hann er fenginn? Er sigurinn jafn sætur ef hann er fenginn með því að berja á einhverju unglingsgreyji með flautu sem þorði ekki annað en að dæma þínu liði í hag?

Dómarar eru í hvorugu liðinu og fá því ekki ánægju af sigri, þeirra ánægja verður að koma frá eigin vissu um að hafa unnið gott starf. En hvað uppskera þeir? Ekki er mikið um jákvæðni og hrós, fátt nema neikvæð viðbrögð, skammir og skítkast. Við dómarar erum hluti af leiknum og gerum mistök eins og leikmenn. En við verðum örugglega ekki betri undir svona pressu og áreiti.

Nú í vetur hefur verið rætt um skort á dómurum, lélega nýliðun og mikið brottfall. Er fólk hissa á þvi? Ég hef spurt sjálfan mig af hverju ég sé að dæma. Jú, ég hef mjög gaman af körfubolta en get ekki spilað lengur og þetta er ein leið til að taka þátt í leiknum. En ég er ekki í þessu til að standa í rifrildi við fullorðið fólk og sitja undir reiðilestri heilu leikina. Einfaldast er að standa ekki í þessu og láta öðrum þetta eftir.

Viljum við hafa þetta svona?
Fyrir mér vekur þetta grundvallarspurningar um þá umgjörð sem við viljum hafa um körfuboltaíþróttina:

· Hvernig dómara viljum við á leiki í yngri flokkum? Viljum við eingöngu unglinga sem eru skikkaðir til að dæma af þjálfurum sínum, krakka sem varla blása í flautuna nema þegar þeir þora ekki öðru vegna gargsins frá þjálfurum eða foreldrunum á pöllunum? Eða viljum við hafa fullorðið fólk sem hefur gaman af sínu hlutverki í leiknum og metnað til að mynda trausta umgjörð utan um leik krakkanna?

· Hvernig fyrirmyndir viljum við hafa fyrir börnin okkar? Viljum við hafa þjálfara sem sífellt er að segja dómurunum fyrir verkum á neikvæðu nótunum eða þjálfara sem einbeitir sér að því að hvetja sitt lið áfram á jákvæðan og uppbyggilegan máta? Viljum við að krakkarnir einbeiti sér að því að standa sig vel í leiknum og læri að bera virðingu fyrir starfsmönnu leiksins eða viljum við að þau standi í sífelldu þrasi við dómarana?

· Hvernig fjölgum við í dómarastéttinni og aukum gæði og fagmennsku? Örugglega ekki með því að hrauna yfir unglinga sem eru að byrja að stíga sín fyrstu skref með flautuna. Frekar með því að leyfa þeim að byrja án áreitis undir handleiðslu eldri dómara og finna að þetta getur verið skemmtilegur máti að taka þátt í íþróttinni.
Hvað þarf til að breyta þessu?

Það þarf einfaldlega hugarfarsbreytingu hjá þjálfurum og öðrum aðstandendum liðanna. Einföld siðaregla er allt sem þarf: “Við mótmælum aldrei dómurunum heldur einbeitum okkur að því að spila okkar bolta”. Byrjar hjá þjálfurum og nær til allra iðkenda: “Ef þú mótmælir dómi, þá ferð þú á bekkinn”.

Nær til áhorfenda/foreldra sem einbeita sér að því að hvetja liðin og fagna því sem vel er gert: “Flott skot!”, “Góð barátta!”, “Áfram svona!”, “Góða vörn!”

Þetta stuðlar að jákvæðri upplifun krakkanna af leiknum og sinni frammistöðu í stað þess að þau sitji eftir með súrt bragð í munni og neikvæðni gagnvart dómaranum.

Ég er allavega ánægður með eitt í þessu – að það var ég sem stóð í þessu en ekki einhverjir óharðnaðir unglingar sem voru að stíga sín fyrstu skref með flautuna. Það hefðu getað orðið þeirra síðustu.

Með körfuboltakveðju,

Magnús Ingi Óskarsson
Haukamaður og einlægur áhugamaður um góðan körfubolta
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Sextán ára lið Íslands sem varð Norðurlandameistari árið 2004.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið