Danska landsliðið lék síðustu æfingaleiki sína fyrir leikinn gegn Íslandi, nú um helgina. Eins og kki.is hefur greint frá léku þeir í æfingamóti í Írlandi þar sem þeir fóru með sigur úr býtum. Á sunnudaginn héldu þeir svo til Finnlands þar sem þeir léku tvo leiki gegn heimamönnum. Danir töldu það heppilega andstæðinga til að undirbúa sig fyrir leikinn gegn Íslendingum. Finnar sigruðu örugglega í fyrri leiknum 83-64 og samkvæmt dönskum miðlum mátti gæta þreytu í leik þeirra manna. Á mánudaginn léku þjóðirnar svo aftur og í þeim leik sýndu Finnar enn minni gestrisni en í fyrri leiknum. Finnar skoruðu fyrstu 26 stigin í leiknum, 26-0 og sigruðu að lokum 122-70. Það má því sannarlega segja að Danir hafi skollið harkalega til jarðar eftir sigur á mótinu í Írlandi og er vonandi að þeir rísi ekki upp fyrr en í fyrsta lagi á laugardag.