S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
3.9.2003 | 15:40 | phs
STÓR DAGUR
Ég hygg að engin íþróttagrein í heiminum hafi með jafn skipulegum hætti safnað saman helstu afreksmönnum heimsins í eina keppnisdeild líkt og bandaríska NBA-deildin. Af þeim u.þ.b. 450 milljónum sem stunda körfuknattleik í heiminum er æðsta takmark þeirra allra að komast í NBA. Þar eru margir afreksmenn kallaðir, en afar fáir útvaldir – ekki milljónir, ekki þúsundir, heldur einungis fáein hundruð. Ég vona að íslenskur almenningur og íslenskir fjölmiðlar séu nú upplýstari um það hversu stórt afrek þetta er heldur en var á þeim tímum þegar Pétur okkar Guðmundsson vann það afrek að verða fyrsti Evrópubúinn sem lék í deildinni. Síðan þá hafa bæst við Evrópubúar, en það er ekki svo að stórþjóðir Evrópu geti státað af mörgum slíkum leikmönnum, heldur eru þeir í flestum tilvikum teljandi á fingrum annarar handar. Það að litla Ísland skuli þegar geta rétt upp tvo fingur í því samhengi er ótrúlegt afrek fyrir smáþjóð. En ég ætla ekki að eigna þennan árangur nokkrum öðrum en Jóni Arnóri sjálfum. Þótt við séum vissulega rígmontin af því að hann hafi verið afrakstur uppbyggingar innan félagsliða og landsliða Íslands þá byggir þessi árangur fyrst og fremst á hans eigin getu, dugnaði og hugarfari. Jón Arnór er einbeittur afreksmaður, en er engu að síður jarðbundinn og raunsær (e.t.v. mótsögn þó að kalla hann “jarðbundinn” á leikvelli). Hann er glæsileg fyrirmynd ungra og upprennandi körfuknattleiksiðkenda, og nýtur óskiptrar virðingar allra þeirra sem umgengist hafa hann í íslenskum körfuknattleik. Hann hefur sannarlega verðskuldað þá velgengni sem hefur nú verið skjalfest í deild þeirra bestu í heiminum. Ég vil fyrir hönd stjórnar og starfsmanna KKÍ senda Jóni Arnóri hamingjuóskir og baráttukveðjur. Við stöndum auðvitað öll heilshugar að baki honum og sendum þessu óumdeilda óskabarni íslensks körfuknattleiks hlýja strauma til Texas. Ólafur Rafnsson, formaður KKÍ. |